Skólastjóri í samstarfi við starfsfólk ber ábyrgð á gæðum þess starfs sem fer fram í viðkomandi skóla. Í hverjum skóla skal móta skýra stefnu í samræmi við grunnþætti í menntun, markmið og áhersluþætti grunnskólalaga, ákvæða í aðalnámskrá grunnskóla og skólastefnu viðkomandi sveitarfélags. Jafnframt tekur innra mat mið af starfsaðferðum og sérstöðu hvers skóla sem fram kemur í skólanámskrá. Í skólanámskrá skal gera grein fyrir áherslum og áætlunum um innra mat.
Í hverjum skóla ber að meta árangur og gæði skólastarfsins með kerfisbundnum hætti. Ýmsar leiðir eru færar við mat skóla á eigin starfi en mikilvægt er að það kerfi, sem unnið er eftir, henti skólastarfi viðkomandi skóla. Í vinnu við innra mat skal gerð grein fyrir tengslum við þau markmið sem sett eru fram í skólanámskrá. Hver skóli þróar aðferðir sem taka mið af sérstöðu skólans til að meta hvort og að hve miklu leyti markmiðunum hefur verið náð. Aðferðir við innra mat taka mið af þeim viðfangsefnum sem unnið er að hverju sinni.
Innra mat á að vera samofið daglegu starfi skóla, efla þekkingu, hæfni og ígrundun á starfinu og auka vitund starfsfólks um ábyrgð. Lýðræðisleg vinnubrögð við innra mat þar sem tekið er tillit til sjónarmiða þeirra sem koma að skólastarfinu stuðla að auknum gæðum í starfinu. Niðurstöður innra mats skal nýta til umbóta í skólastarfi að höfðu samráði við skólaráð.