Reglur á skólalóð

Skólalóð - reglur

Þegar best lætur þá eru um 180 einstaklingar á skólalóðinni og því er mikilvægt að þar séu reglur og allir meðvitaðir um þær. Þannig er hægt að koma í veg fyrir slys og allir geta nýtt sér lóðina streitulaust.

Reglur á skólalóð gilda frá fyrir kl. 8:00 og til kl. 16:00.

Hjólagrindur eru á milli Íþróttamiðstöðvar og skóla og fyrir neðan Nýja skóla. Þar á að geyma ÖLL hjól og nauðsynlegt er að setja hjólin í grindurnar (hlaupahjól mega þó vera við neðri inngang í Nýja skóla ef þau eru ekki fyrir inngangi). Hjólagrind starfsfólks er fyrir utan kaffistofuna þeirra.

Á ofangreindum tíma er ekki leyfilegt að hjóla á skólalóðinni nema þegar starfsmenn Skóladagheimilis gefa sérstakt leyfi. Notkun rafknúinna tækja; rafknúinna hlaupahjóla og rafskutla er þó aldrei leyfð á skólalóðinni.

Á Skóladagheimili á þriðjudögum og fimmtudögum (þegar veður leyfir) verður merkt hjólaleið á og í kringum körfuboltavöllinn. Þá er leyfilegt að hjóla þar á þeim tíma en því miður er ekki hægt að vera í körfubolta á meðan. Það er körfuboltaspjald á suðurenda Íþróttamiðstöðvar og hægt að vera þar á meðan.

Hlaupahjól (án rafmagns), hjólabretti og línuskautar eru leyfð á rampinum (viðkomandi verða þá að vera með hjálm) en þá geta aðrir ekki leikið sér (hlaupa og sitja) á því svæði (hjól og BMX-hjól eru ALDREI leyfð á þessu svæði milli kl. 8:00 – 16:00).

Kastalinn: Aðeins er leyft að renna sér niður rennibrautina og gæta verður þess að hún sé auð þess á milli. Dót/smáleikföng á að leika með utan kastalasvæðisins.

Í boði eru ýmis smáleikföng; boltar, snú snú- bönd, sippubönd, stultur, bílar, teygjutvist, kubbur o.fl. Eingöngu skal nota leikföngin í það sem þeim er ætlað (sippubönd eru t.d. til þess að sippa með og snú snú bönd til að fara í snú snú). Krítar skal nota á torginu fyrir framan nýja- og gamla skóla. Starfsfólk þarf að sjá til þess að nemendur gangi frá eftir sig. 

Fótbolti: Við erum í fótbolta á sparkvellinum, á pönnuvellinum (battavellinum), við markið á grasinu og á körfuboltavellinum má senda á milli eða halda á lofti ef enginn er í körfubolta. Aðrir staðir eru ekki fyrir fótbolta eða fótboltaleiki. Því miður er ekki hægt að leika sér með bolta á ærslabelgnum því það eru oftast svo margir á belgnum í einu að það skapast mikil hætta af boltum. Undanþága er þó veitt í hádegishléi á mið- og unglingastigi samkvæmt skipulagi. 

Það á eingöngu að fara úr skóm þegar farið er á ærslabelginn. Það á að vera í skóm á sparkvellinum.

Stundatöflur eru fyrir bæði ærslabelginn og sparkvöllinn á skólatíma (töflurnar hanga uppi nálægt inngöngum) og þarf að fara eftir því skipulagi. Þeir sem ekki eru á Skóladagheimilinu mega nota hvoru tveggja með leyfi frá starfsfólki Skóladagheimilis gegn því að fara eftir settum reglum. 

Reglurnar vegna ærslabelgsins eru eftirfarandi og eiga við allan sólarhringinn: Ekki „ýtó“ ef margir eru á belgnum. Ekki mat eða drykk á belgnum. Aðeins skólausa fætur á belgnum. Eldri verða að taka tillit til yngri. 

Það á að nota hjólagrindur, alltaf. Líka þegar komið er á skólalóðina eftir skóla. Hjól nálægt ærslabelgnum skapa mikla hættu fyrir þau sem eru á honum.

Göngum vel um og setjum rusl í ruslatunnur.