Skóli er sameiginlegur vinnustaður nemenda og starfsfólks. Til að öllum líði vel og námsárangur verði góður gilda eftirfarandi reglur við Húnaskóla.
Nám er vinna
Námið er vinna nemenda og til þess að sú vinna skili árangri ber sérhverjum nemanda að taka tillit til annarra og virða vinnufrið í kennslustundum. Nemendum ber að standa við þær námsáætlanir sem þeim hafa verið settar og mæta með öll gögn og áhöld sem til er ætlast.
2. Mætingar
Við mætum stundvíslega og vel undirbúin í allar kennslustundir.
3. Samskipti
Samskipti starfsfólks, nemenda og foreldra skulu grundvallast á gagnkvæmri virðingu, kurteislegri framkomu og tillitssemi. Nemendur eiga að hlíta fyrirmælum skólastjórnenda, kennara og annars starfsfólks í öllu því er skólann varðar.
4. Umgengni
Við göngum snyrtilega um skólann og skólalóðina. Nemendur gæti þess að valda ekki skemmdum á eigum skólans, starfsfólks eða skólafélaga sinna. Nemendum er óheimilt að koma með eldfæri, hnífa eða annað sem getur valdið skaða eða skemmdum. Snjalltæki eru bönnuð nema með leyfi skólastjórnenda -sjá nánar snjalltækjareglur sem gilda fyrir unglingastig.
5. Skólalóð
Nemendur mega ekki fara af skólalóð á skólatíma án leyfis kennara eða skólastjórnenda. Óheimilt er að hjóla og/eða renna sér á línuskautum og hjólabrettum nema á afmörkuðum svæðum á skólalóð.
6. Sælgæti, tóbak og áfengi
Nemendur mega ekki neyta sælgætis, tyggigúmmís og gosdrykkja á skólatíma nema við sérstök tækifæri. Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna er alltaf stranglega bönnuð í og við skóla og hvar sem nemendur eru á vegum skólans.
7. Skór og yfirhafnir
Við göngum frá yfirhöfnum og útiskóm á viðeigandi stað og skiljum ekki verðmæti eftir í vösum.
1. Brot á skólareglum
Viðkomandi starfsmaður áminnir nemanda og skráir brotið. Umsjónarkennari er látinn vita.
2. Endurtekin brot
Umsjónarkennari (og þeir sem hann kallar til) fundar með nemanda og foreldrum hans. Gert er samkomulag um leiðir til úrbóta.
3. Enn í sama farinu
Málinu vísað til skólastjóra. Fundur með nemanda og foreldrum hans. Leiðir til úrbóta endurskoðaðar og ný áætlun gerð um framhald.
4. Engin lausn í sjónmáli
Skólastjóri tekur málið aftur til meðferðar. Áætlun skal gerð um aðgerðir og nemanda og foreldrum hans gerð grein fyrir þeim. Aðgerðir geta m.a. falist í vísun til sérfræðiþjónustu innan eða utan skóla, sérúrræðum innan skólans eða tímabundinni brottvísun.
5. Ef allt um þrýtur
Nemandanum vísað úr skóla og málið sent skólanefndar til úrlausnar.
Gróft brot á skólareglum getur valdið því að nemanda sé umsvifalaust vísað til skólastjóra sem tekur ákvörðun um framhald málsins. Hafa skal samband við foreldra eins fljótt og auðið er.
Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eigum skóla, starfsfólks eða skólafélaga sinna.
Mæti nemandi í skólann með skaðlega eða truflandi hluti að mati starfsfólks eru þeir gerðir upptækir. Þeir verða síðan afhentir nemanda eða foreldri, eftir því sem ástæða þykir til, að skóladegi loknum.
Nemendum bekkjar er heimilt að setja sér bekkjarreglur. Þær skulu lagðar fyrir skólastjóra til samþykktar og teljast þá hluti af reglum skólans.
Nemanda og foreldrum/forráðamönnum hans skal gefinn kostur á að tjá sig ef ítrekað er að hegðun nemanda fundið og alltaf við brotum á skólareglum.
Foreldrum/forráðamönnum skal ætíð gerð grein fyrir brotum barna sinna á skólareglum og beitingu viðurlaga.
Ávallt skal hafa samstarf við foreldra/forráðamenn nemanda um úrlausn máls.