Nemendur í 3. og 4. bekk Húnaskóla fengu tækifæri til að taka þátt í Fágæti og furðuverk, núna eftir áramót. Í hverjum poka/þema var að finna bók/tímarit sem nemandinn á að geta lesið, spil, púsl, leikföng o.fl. sem tengist efninu. Þemun voru jafn fjölbreytt og pokarnir eru margir. Þar má m.a. finna þemu þar sem fjallað er um fótbolta (var mjög vinsælt), hunda, sveitina, hesta, lögreglu, risaeðlur, matreiðslu o.sfrv. Hægt var að velja á milli 36 þemu/poka, þannig að allir hefðu átt að finna eitthvað sem þeir hefðu áhuga á, eða vildu fræðast frekar um.
Nemendur völdu sér þema á mánudegi og skiluðu aftur á fimmtudegi. Ásamt því að geta leikið sér og lesið sér til um tiltekin efni, þá skrifuðu nemendur og aðstandandi í dagbók. Einnig var verkefni unnið upp úr þemunum sem var svo hengt upp á göngum skólans.
Verkefninu var mjög vel tekið í Húnaskóla og voru nemendur áhugasamir. Þeir hefðu þó gjarnan viljað hafa lengri tíma til að vinna með efnið, og verður það vonandi mögulegt í framtíðinni.
Læsisverkefnið var upphaflega sett saman af Sonju Dröfn árunum 2014-2015. Markmið verkefnisins snýst um að efla læsi barna. Læsi er ekki námsgrein heldur grunnfærni sem gengur þvert á allar námsgreinar og er undirstaða annars náms. Því er mikilvægt að heimili og skólar séu samstíga í því að styrkja læsi barna. Verkefninu er einnig ætlað að styðja við foreldra, einkum feður og aðra karlmenn í fjölskyldunni, til að lesa með börnum og skapa þannig jákvæða lestrarfyrirmynd á heimilum.
Þar sem langt er síðan efnið var tekið saman og tæknin sífellt að breytast er þörf á að uppfæra efnið og standa vonir okkar til þess að það megi verða áður en næsti hópur fær það. Hugmyndin er að hver hópur geti valið sér efni tvisvar á skólaárinu, einu sinni fyrir áramót og einu sinni eftir áramót, fjórar vikur í hvort sinn eða samtals 8 þemu.
Með bestu kveðju, Anna Margrét, Erla, Jóhanna og Sonja Dröfn
Við Húnabraut 2a | 540 Húnabyggð Sími: 455-4750 Netfang: hunaskoli@hunaskoli.is |
Skólinn er opinn frá |
.